Nú er skammt til jóla og aðventan líður alltof hratt. Margir velta fyrir sér hvernig þessi jól verði. Svarið liggur innra með okkur hverju og einu. Þau verða gleðileg ef við óskum þess og sjáum björtu hliðarnar í lífinu. Mörgum reynist það erfitt og sjálfsagt er það alltaf svo að skuggi hvílir yfir jólum einhverra. Þá skiptir máli að leita í ljósið og leita ljóssins. Hugarfarið skiptir svo miklu og getur létt okkur lund ef við lærum að skilja allt hið góða í kringum okkur þótt í smáu sé.
Það er margt sem glepur og dregur athyglina frá því jákvæða. Jólaboðskapurinn er fullur gleði og vonar og undir það geta allir tekið. Um jól er okkur öllum hollt að leita inn á við og skoða. Breyta má hegðun okkar sjálfra svo betur fari. Kærleikurinn er boðskapur jólanna. Af honum er sjaldnast nóg. Kristur boðaði hið gullna lögmál að menn skyldu koma svo fram við hver við annan eins og þeir sjálfir vildu láta koma fram við sig. Þarna er kjarni kærleikans fólginn.
Jólin 2010 verða vonandi öllum eftirminnileg. Fleiri en nokkru sinni fyrr geta ekki haldið jól aðstoðarlaust. Þá er rétt að brýna þá sem betur mega sín að muna eftir þeim sem erfiðara eiga því til þeirra þarf jólaboðskapurinn líka að ná. Látum anda jólanna ná tökum á okkur öllum.
Kæru Kerhraunarar, jólakveðjur til ykkar allra. Vonandi að jólin verði ykkur gleðileg í faðmi vina og vandamanna. Látum jólaljósin lýsa okkur inn í framtíðina, og tökum fagnandi á móti nýju ári með öllu sem það hefur upp á að bjóða.