Kerhraun

Samþykktir


1. Samþykktir – breyting 2017
2. Samþykktir – breyting 2023

 

  1. grein

Félagið heitir; KERHRAUN, félag frístundahúsaeigenda, Grímsnesi. Heimili þess er í Reykjavík.

  1. grein 

Félagsmenn eru sjálfkrafa  allir þeir sem eiga lóð á svæðinu samkvæmt staðfestu deiliskipulagi sem skiptist í A, B og C svæði.

Selji aðili lóðina gengur hann sjálfkrafa úr félaginu.

  1. grein

Tilgangur félagsins er:

1)   að gæta lögmætra hagsmuna félagsmanna

2)   að stuðla að og standa fyrir sameiginlegum framkvæmdum félagsmanna á félagssvæðinu.

3)   að stuðla að og fylgjast með góðri umgengni á félagssvæðinu.

  1. grein

Árgjald fyrir hverja lóð skal ákveðið á aðalfundi ár hvert.  Gjalddagi árgjalds og eindagi er ákveðinn á aðalfundi ár hvert.

Eigendum allra lóðanna er skylt að greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert. Árgjaldi er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Framkvæmdagjald, sem rennur til framkvæmda og verkefna, skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Gjalddagi framkvæmdagjalds og eindagi þess er einnig ákveðinn á aðalfundi ár hvert. Eigendur allra lóða á svæðinu er skylt að greiða samþykkt framkvæmdagjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert.

  1. grein

Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir verkum sínum og skilar endurskoðuðum reikningum. Aðalfund skal halda á hverju ári fyrir 15. apríl og er hann æðsta vald í málefnum félagsins. Til aðalfundar skal stjórnin boða með sannanlegum hætti, bréfi/tölvupósti og/eða með auglýsingu á heimasíðu félagsins, www.kerhraun.is með minnst 10 daga fyrirvara.

Aðalfundur telst lögmætur mæti minnst 1/5 hluti félagsmanna. Hverri lóð fylgir eitt atkvæði.  Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skal geta þeirra mála sem ræða á og meginefni þeirra tillagna sem leggja á fyrir fundinn. Taka skal sérstaklega fram í fundarboði, ef bera á fram á aðalfundi tillögur um kostnaðarsamar framkvæmdir. Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Ef fyrirhuguð er breyting á samþykktum þessu  skal þess sérstaklega getið í fundarboði.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  2. Framlagning ársreiknings til samþykktar og umræður.
  3. Kosning formanns.
  4. Kosning annarra stjórnarmanna.
  5. Kosning varamanna.
  6. Kosning skoðunarmanns og varamanns hans.
  7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir árið.
  8. Ákvörðun framkvæmda- og félagsgjalda.
  9. Önnur mál.

 

Afl atkvæða ræður á fundinum, þó þarf 2/3 hluta atkvæða til að lagabreytingar nái fram að ganga.

  1. grein

Stjórn félagsins skipa fimm menn, kosnir á aðalfundi. formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.

Formann skal kjósa sérstaklega, til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn, sem skipta með sér verkum, skulu kosnir til tveggja ára, þannig að tveir þeirra séu kjörnir ár hvert.

Stjórn félagsins er starfhæf séu 3 af 5 stjórnarmönnum mættir til fundar.

Á aðalfundi eru kosnir tveir skoðunarmenn reikninga, kjörtímabilið er eitt ár. Ef einn eða fleiri félagsmenn krefjast leynilegrar atkvæðagreiðslu skal það gert svo. Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem honum þykir þörf á eða þegar aðrir stjórnarmenn óska þess. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

  1. grein

Stjórninni er heimilt að skipa sérstakar nefndir og/eða umsjónarmenn verkefna, ef henni þykir ástæða til.

Nefndin leggur svo tillögur sínar fyrir stjórn til endanlegrar samþykktar.

  1. grein

Stjórn félagsins kveður til félagsfundar, þegar hún telur þess þörf, eða þegar 1/3 hluti félagsmanna óskar þess skriflega. Félagsfundir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundir. Fundarefni skal tilgreint ótvírætt í fundarboði. Einfaldur meirihluti fundarmanna ræður öllum ákvörðunum félagsins. Hverju lóð fylgir eitt atkvæði. Félagsmanni skal heimilt að senda umboðsmann fyrir sig á félagsfund. Umboð skal vera skriflegt.

  1. grein

Í sérstaka gerðarbók skal skráð stutt yfirlit yfir allt það sem gerist á félagsfundum og stjórnarfundum. Fundargerðir skulu lesnar upp í hver fundarlok eða á næsta fundi. Fundargerðir skulu undirritaðar af formanni félagsins og fundarritara. Fundargerðirnar eru síðan full sönnun þess sem fram hefur farið á fundinum.

  1. grein

Hætti félagið störfum, skal almennur fundur félagsmanna, sem slítur félaginu, taka ákvörðun um ráðstöfun á eignum, sem félagið kann að eiga, enda skal þess sérstaklega getið í fundarboði.

Verði samþykktum þessum breytt á aðalfundi skal birta þær á heimasíðu félagsins, www.kerhraun.is.